Íslandi í 3. sæti yfir mestu lífsgæði í heiminum


Skorkort Íslands fyrir 2017

Ísland er í 3. sæti af 128 þjóðum þegar kemur að lífsgæðum og styrk samfélagslegra innviða samkvæmt árlegri úttekt Social Progress Imperative stofnunarinnar (SPI). Úttektin var birt í dag og sýnir vísitölu félagslegra framfara (VFF – Social Progress Index) fyrir löndin 128. Vísitalan er sett saman úr 50 vísum sem byggja á þremur stoðum; grunnþörfum einstaklingsins, undirstöðum velferðar og tækifærum einstaklingsins.

VFF byggir einungis á félagslegum og umhverfslegum þáttum og engum hagrænum stærðum.

Danmörk er í efsta sæta 2017 listans, Finnland kemur þar á eftir, í 3. sætinu ásamt Íslandi er Noregur og Svíþjóð er í 8. sæti. Norðurlöndin eru því öll í hópi 10 efstu þjóða á 2017 listanum.

Vísitalan er reiknuð árlega og nær til um 98% íbúa heimsins. Mælikvarðinn gefur glögga mynd af því hversu vel löndum hefur tekist að tryggja íbúum sínum velferð og skapa þeim tækifæri til að bæta líf sitt.

Meðaleinkunn á 2017 listanum er 64.85 en einkunn Íslands er 90,27. Af 128 löndum á listanum hafa 113 bætt einkunn sína síðan 2014. Ísland var í 10. sæti á listanum 2016 og hækkar því um sjö sæti milli ára.

Samkvæmt vísitölunni er hvergi í heiminum meiri umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum en á Íslandi, þátttaka þeirra í samfélaginu er mest hér og hvergi er minna um mismunun og ofbeldi í þeirra garð. Þá skorar Ísland hæst er viðkemur trúfrelsi og býður upp á öruggt og traust samfélag. Aðgengi að upplýsingum og fjarskiptum er með því besta í heiminum (5. sæti) en í landinum er netnotkun sú mesta miðað höfðatölu eða 98% og 100 farsímaáskriftir eru á hverja 100 íbúa.

Helsti veikleiki Íslands í alþjóðlegum samanburði er gæði umhverfismála (25. sæti) og hefur mikil umferð ferðamanna þar á meðal áhrif. Ísland skorar lágt þegar kemur að líffræðilegum fjölbreytileika og búsvæðum (103. sæti) og úrbóta er þörf þegar kemur að meðhöndlun skólps. (26. sæti). SPI stofnunin hefur aðsetur í Washington og London og er ekki rekin í hagnaðarskyni (non-profit). Stofnunin hefur tekið saman VFF listann frá árinu 2013.

Recent Posts
Archive
Search By Tags
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square